Djúpríkið, valdaklíkur, og táknrænt auðmagn
Arnar Þór Jónsson, Berglind Rós Magnúsdóttir og Pierre Bourdieu.
Eftir því sem ójöfnuður og stéttaskipting í íslensku samfélagi eykst þá breytist tungumálið sömuleiðis, og hvernig fólk notar það. Tungumálið verður stéttskiptara. Íslenskan sem er töluð í efri lögum samfélagsins og neðri lögum þess breytist þangað til fólkið í efri lögunum þykist ekki lengur skilja hvað fólkið í neðri lögunum er að segja.
Nýverið notaði íslenskur stjórnmálamaður af hægri kantinum orðið djúpríki til að lýsa spillingunni í efstu lögum íslensks samfélags. Prófessor í stjórnmálafræði var hinsvegar fljótur að skamma hann og segja að þetta væri röng hugtakanotkun.
En hvað er þetta djúpríki eiginlega?
,,A deep state is a type of government made up of potentially secret and unauthorized networks of power operating independently of a state's political leadership in pursuit of their own agenda and goals. In popular usage, the term carries overwhelmingly negative connotations and is often associated with conspiracy theories.”
Hvað þýðir þetta?
,,Djúpríkið er tegund valds sem samanstendur af hugsanlega leynilegum og óopinberum og ósamþykktum valdanetum sem starfa óháð pólitískri forystu ríkisins í þágu eigin hagsmuna og markmiða. Í almennri notkun ber hugtakið neikvæða merkingu og er oft tengt við samsæriskenningar”
Ókei.
Er það virkilega svo að á Íslandi sé ekki til vald sem samanstandi af hugsanlega leynilegum og óopinberum og ósamþykktum valdanetum sem starfi óháð pólitískri forystu ríkisins í þágu eigin hagsmuna og markmiða?
JÚ, AUÐVITAÐ, ÞETTA ER NÁTTÚRLEGA ALVEG RÉTT.
Það mætti jafnvel fullyrða að þetta þurfi ekki endilega að vera neitt sérstaklega óeðlilegt. En þetta er samt alveg hárrétt.
Er það ekki annars eðli kapítalismans að eftir því sem fleiri svið samfélagsins færast frá valdsviði hins opinbera og til markaðarins færist vald samfélagsins því samhliða frá lýðræðislega kjörinni forystu ríkisins til hagsmunaaðila á markaði?
Stéttaskipting og völd í rannsóknum íslenskra fræðimanna
Berglind Rós Magnúsdóttir félagsfræðingur hefur unnið merkilegar rannsóknir þar sem hún rannsakar íslenskt samfélag út frá kenningum franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu. Þar hefur hún til að mynda sýnt fram á hvernig íslenskar stofnanir ýta undir og endurskapa félagslega lagskiptingu.
Félagsfræðingurinn Guðmundur Ævar Oddsson sem sömuleiðis hefur unnið mikilvægar rannsóknir á stéttaskiptingu í íslensku samfélagi hefur bent á að ekkert samfélag hafi orðið ójafnara hraðar en Ísland á árunum 1995-2008. Og að hugmyndir um Ísland sem stéttlaust samfélag komi alltaf frá efstu lögum samfélagsins. Elítur gangast nefnilega sjaldnast við því að vera elítur, eins og birtist svo skemmtilega í frægri grein Ragnars Kjartanssonar.
Morgunblaðið og HBO - Valdhafar sem við getum ekki kosið burt
Önnur þýðing á orðinu djúpríki, og kannski öllu auðveldari í notkun væri einfaldlega valdhafar innan samfélagsins sem ekki er hægt að kjósa burt í lýðræðislegum kosningum.
Eitt dæmi um slíkan valdhafa er til dæmis Morgunblaðið.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor á facebook bara í gær eða fyrradag:
,,Áhrif Morgunblaðsins á íslensk stjórnmál hafa verið verulega vanmetin á undanförnum árum og eru áhugavert rannsóknaefni. Þrátt fyrir verulega fækkun áskrifenda er Morgunblaðið enn stjórveldi þegar kemur að því að móta umfjöllun annarra miðla og samfélagsumræðuna.
Ritstjórar Morgunblaðsins hafa til að mynda um árabil talað fyrir harðari innflytjendalöggjöf sem engin hlustaði á í upphafi en hefur nú verið tekin upp af fimm ef ekki sex flokkum á Alþingi. Heilu flokkarnir skipa á framboðslista sína með það í huga að sýna fram á nýja stefnu sem takmarkar móttöku flóttafólks. Fjöldi innflytjenda í landinu er eitt helsta kosningamálið. Morgunblaðið hefur átt stóran þátt í því að þróa samfélagsumræðuna yfir á íhaldssamari mið síðustu misserin. Morgunblaðið er ekki [Klausturreglan] en það mótar hina heilögu ritningu Reglunnar.”
Fjölmiðill fjármagnaður af ríkasti fólki Íslands sem tekst að sveigja stefnu fimm, sex stjórnmálaflokka í átt að aukinni hörku í garð verst setta hóps samfélagsins? Fjölmiðill sem tekst að breyta stefnu jafnaðarmannaflokksins Samfylkingarinnar þannig að hún tali ekki lengur fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu en tali frekar fyrir aukinni hörku gegn hælisleitendum? Er það ekki bara mjög skýrt dæmi um tegund valds sem hægt væri að kenna við djúpríkið samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu þess?
Fjölmörg fleiri dæmi mætti nefna.
Þegar Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra á í leynilegum samskiptum við forstjóra amerísks stórfyrirtækis þar sem hún lofar að húni mun breyta lögum í þágu hagsmuna fyrirtækisins þá má færa rök fyrir því að hún sé að iðka tegund valds sem hægt væri að kenna við djúpríki.
Hvalveiðar, áfengi í verslanir og ókeypis skólamáltíðir
Í þessu samhengi mætti líka nefna þá sífellt algengari tilhneigingu í íslenskri stjórnsýslu að reglunum sé breytt í íslensku samfélagi með einu pennastriki og/eða geðþóttaákvörðunum ráðherra um túlkanir reglugerða án þess að fram hafi farið lýðræðislegar umræður um þær tilteknu breytingar, sem komi svo til kasta Alþingis að taka ákvörðun um. Sem er athyglisverð þróun sama hvort fólk sé sammála viðkomandi breytingum eður ei. Þannig er það algjörlega hipsumhaps eftir geðþóttákvörðunum ráðherra hvort að hvalveiðar séu leyfðar eða ekki, áfengi er komið í heimsendingu þó það sé eiginlega bannað og Íslendingar komust loksins í hóp siðaðra þjóða sem gefa skólabörnum að borða með geðþóttaákvörðun í miðjum kjarasamningum.
Allt eru þetta dæmi um ákvarðanir sem ríkisvaldið hefur tekið án þess að almenningur og/eða fulltrúar þess á Alþingi hafi fengið neitt um þær að segja.
En aftur að djúpríkinu, já
Foreldri sem upplifir það að vera vakið um miðja nótt með harkalegu ofbeldi, og er handtekið af sérsveit lögreglunnar og flutt nauðaflutningum á Keflavíkurflugvöll þar sem ætlunin er að vísa viðkomandi úr landi ásamt langveiku barni - því stjórnvöld telja sig hafa pólitíska hagsmuni af því - það veit alveg hvernig djúpríkið virkar.
Stelpa sem hefur mætt á lögreglustöðina að kæra valdamikinn mann fyrir nauðgun, hún veit alveg hvernig djúpríkið virkar. Hún þekkir alveg þá tegund valds sem samanstendur af óopinberum og ósamþykktum valdanetum sem starfa í þágu tiltekinna hagsmuna óháð lögum og pólitískri forystu.
Stundum eru þetta fyrirbæri kallað feðraveldi, stundum er það kallað valdaklíka, stundum er það kallað menningarlegt eða félagslegt auðmagn. Það fer bara eftir því hvern þú spyrð og hvaða stétt viðkomandi tilheyrir. En fyrirbærið er til sama hvaða orði þú kýst að kalla það.
Og þessi valdakerfi eru ekkert nýtt fyrirbæri í íslensku samfélagi. Styrmir Gunnarsson kallaði þetta ,,ógeðslegt þjóðfélag.” Valdakerfi Sjálfstæðisflokksins gekk lengi vel undir nafninu Kolkrabbinn, og valdakerfi Framsóknarflokksins var einatt kennt við Sambandið. Á milli þessara tveggja flokka var svo helmingaskiptakerfi. Á árunum fyrir hrun skiptust átakalínur í efstu lögum samfélagsins í Davíðsklíkuna og Baugsklíkuna. Og vakti það sérstaka athygli erlendra fræðimanna sem reyndu að greina átakalínur í íslensku samfélagi í aðdraganda hrunsins hve átakalínurnar snerust fyrst og fremst um persónur og leikendur og persónulega hagsmuni og persónulega valdabaráttu frekar en nokkuð annað. Djúpríkið á Íslandi hefur alltaf verið til. Valdaklíkurnar hafa alltaf verið til. Hagsmunagæsla um sameiginlega hagsmuni ólíkra tegunda auðmagns hefur alltaf verið til. Og það er í besta falli barnaskapur að láta eins og svo sé ekki.
En af hverju þessi tilhneiging að hafna hugtakinu djúpríki þegar tilvist þess er öllum ljós þó hugtökin yfir það séu mismunandi?
Jú, orðið hefur á sér slæmt orðspor. Það er tengt Trumpisma, og samsæriskenningabulli. Alveg skiljanlegt að fólk vilji ekki láta bendla sig við svoleiðis.
En ástæðurnar eru líka dýpri og flóknari en svo. Þannig er það merki um hvaða stétt og hvaða þjóðfélagshóp þú tilheyrir hvort þú kjósir að nota hugtök eins og djúpríki eða feðraveldi eða auðmagn eða valdaklíka. Eða elíta. Það gefur til kynna menntunarstig, stéttastöðu, heimsmynd og ýmislegt fleira sem efri lög samfélagsins nota til að aðgreina sig frá hinum. Fyrirbrigði sem franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu kallaði distinction.
Annað dæmi um slíkt distinction, er þegar Bjarni Benediktsson notar hugtakið blöndun menningarheima til aðgreiningar frá lágstéttar-rasistunum sem vara við blöndun kynþátta. Hugmyndin er í raun sú sama, en hugtakanotkunin sker úr um það hvort orðræðan sé leyfileg eða ekki.
Önnur ástæða fyrir þessari tilhneigingu efri laga samfélagsins að fúlsa við orðnotkuninni djúpríki, þó hún noti önnur svipuð orð til að lýsa nátengdum fyrirbærum er svo vitaskuld áhrif sjónarhornsins á skilning manns á veröldinni.
Sá sem tilheyrir valdastéttinni upplifir valdastéttina ekki endilega sem eitthvað slæmt fyrirbrigði. Eða alls ekki. Hann upplifir hana sem eðlilega og náttúrulega. Náttúrulega skipan hlutanna. Og þó viðkomandi sé kannski í aðstöðu til að hringja eitt símtal til að nödsa sér og sínum fram fyrir röðina, þá upplifir hann það ekki sem eitthvað meiriháttar samsæri. Og hann trúir því einlæglega ekki að valdið sé slæmt, því ef eitthvað kemur uppá, eitthvað stjórnsýsluvesen, þá er hann alltaf einu símtali frá því að fá það leiðrétt. En sá sem er skilinn eftir af því Jói Valdakall hringdi símtalið og nödsaði bróður sínum fram fyrir röðina. Hann upplifir hinsvegar meiriháttar samsæri. Sá sem ekki er í aðstöðu til að geta reddað sér úr óréttlátri stjórnsýsluklípu með einu símtali, hann upplifir stjórnsýsluna hinsvegar sem óréttláta og ofbeldisfulla.
Þannig er það fullkomlega eðlilegt að fólk af lægri stéttum noti sterkari og harðari orð þegar það lýsir upplifunum sínum af stéttaskiptingu og spillingu en fólk sem tilheyrir efri stéttum og hefur skilgreiningarvald yfir tungumálinu.
Og það er óendanlega mikilvægt að við hlustum á þetta fólk og heyrum hvað það hefur að segja og hvað það hefur upplifað, í stað þess að skamma það fyrir hugtakanotkun sem samrýmist ekki heimsmynd okkar fína fólksins um að allir valdhafar séu góðir inn við beinið og séu að gera sitt besta.